Leiguskilmálar Kristice ehf.
Almennt
Kristice ehf., kt. 520820-0350 („Kristice”) er handtöskuleiga á vefsíðunni www.kristice.is þar sem viðskiptavinir geta fengið leigða hönnunarhandtösku („varan”) til skamms tíma. Kristice hvetur væntanlega viðskiptavini til þess að lesa skilmála þessa vandlega áður en leiguferlið er hafið.
Athygli er vakin á því að með notkun vefverslunarinnar samþykkir viðskiptavinur skilmálana fyrirvaralaust og staðfestir að hann hafi kynnt sér þá, eins og skilmálarnir eru settir fram á hverjum tíma.
Viðskiptavinir
Eingöngu einstaklingar, sem náð hafa 18 ára aldri, geta stofnað aðgang á heimasíðu Kristice og leigt vörur í vefversluninni. Viðskiptavinur samþykkir og skuldbindur sig til að gæta trúnaðar um aðgang sinn og lykilorð, veita réttar upplýsingar um sig og uppfæra bæði greiðslu- og persónuupplýsingar, taki þær breytingum. Viðskiptavinur ber ábyrgð á hvers kyns notkun sem tengist aðganginum og að upplýsa Kristice eins skjótt og kostur er, vakni grunur um óleyfilega notkun annars aðila á aðgangi viðskiptavinar. Allur réttur er áskilinn til að loka aðgangi viðskiptavinar í slíkum tilvikum eða ef farið er gegn skilmálum þessum.
Vörur Kristice
Kristice kaupir nýjar handtöskur sem ætlaðar eru til útleigu og ábyrgist uppruna vörunnar. Viðskiptavinur getur eingöngu leigt eina handtösku í senn og til skamms tíma hverju sinni. Viðskiptavini er ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að framleigja handtösku í eigu Kristice, lána eða afhenda öðrum hana til afnota. Viðskiptavinur getur ekki eignast vöru á grundvelli leigu skv. skilmálum þessum.
Upphaf og lok leigutíma, afbókanir
Varan er afhent leigutaka á tilgreindum afgreiðslustað, gegn framvísun skilríkis með mynd.
Afhending fer fram á miðvikudögum og er hámarksleigutími hverju sinni 7 dagar, nema samið sé sérstaklega um annað.
Við upphaf leigutíma er varan afhent í kassa og rykpoka (ef við á) ásamt öðrum fylgihlutum, s.s. keðjum og ólum. Hverri vöru fylgir kerfi til þess að tryggja rekjanleika og yfirlit yfir öll eðlileg og lítilsháttar slit. Sé annarri vöru skilað fyrir þá sem leigð var, mun Kristice líta svo á að varan sé glötuð.
Viðskiptavinur skal skila vörunni við lok umsamins leigutíma hverju sinni. Skili viðskiptavinur vörunni 1 klst. eftir að leigutími rennur út eða síðar, er Kristice heimilt að innheimta allt að sólarhringsgjaldi til viðbótar. Fyrir hvern dag sem hefst þar eftir er Kristice heimilt að innheimta öll gjöld samkvæmt verðskrá hverju sinni.
Viðskiptavinur getur afbókað leigu innan 24 klst. frá staðfestingu bókunar. Vinsamlegast sendið afbókunarbeiðni á tölvupóstfangið kristice@kristice.is.
Berist afbókun a.m.k. 14 dögum fyrir upphaf leigutíma (þ.e. miðvikudegi tveimur vikum fyrir afhendingu) verður leigugjald endurgreitt að fullu. Berist afbókun síðar er helmingur leigugjalds endurgreiddur.
Ábyrgð og áhætta viðskiptavinar
Ábyrgð og áhætta á vörunni flyst yfir til viðskiptavinar þegar afhending hefur farið fram. Á meðan leigutíma stendur og þar til varan er komin aftur í hendur starfsmanns eða ábyrgðarmanns Kristice, ber viðskiptavinur fulla og takmarkalausa ábyrgð á öllu tjóni sem varan kann að verða fyrir í vörslum hans. Sama gildir ef varan týnist eða henni er stolið. Í slíkum tilvikum skal viðskiptavinur framvísa lögregluskýrslu.
Viðskiptavini ber að sýna tilhlýðilega aðgæslu við notkun handtöskunnar, þ.á m. forðast aðstæður sem leitt geta til skemmda á vörunni, s.s. miklar breytingar á hitastigi, sólarljósi, raka o.s.frv. Viðskiptavinur skal jafnframt gæta þess að skilja handtöskuna ekki eftir á glámbekk eða þar sem ung börn og gæludýr geta náð til. Viðskiptavinur skal forðast að þrífa handtöskuna sjálfur.
Verði handtaskan fyrir tjóni í umsjá leigutaka skal viðskiptavinur tilkynna Kristice það tafarlaust með tilkynningu á tölvupóstfangið kristice@kristice.is ásamt ljósmynd af töskunni þar sem umrætt tjón er sýnilegt. Kristice getur krafist þess að viðskiptavinur skili vörunni ef við á.
Samkvæmt skilmálum þessum telst tjón m.a. vera lykt sem ekki er hægt að ná úr tösku, (s.s. reykingar- og ilmvatnslykt), óhreinindi og blettir (t.d. eftir penna, matvæli, snyrtivörur, bleytu og lit af fatnaði) hvort sem er að innan- eða utanverðu auk dælda eða sjáanlegra ummerkja að utanverðu. Allar skemmdir sem verða umfram eðlileg slit, handtaskan týnist eða henni er stolið teljast einnig til tjóns.
Verð og önnur gjöld
Öll verð eru gefin upp í íslenskum krónum (ISK) og skal leigugjald vera greitt að fullu með kreditkorti, fyrir afhendingu.
Viðskiptavinur samþykkir með notkun vefsíðunnar að kostnaðarverð töskunnar á hverjum tíma verði innheimt ef tjón í skilningi skilmála þessara verður á vörunni. Kostnaðarverð er upphæð sem nemur heildarverðmæti nýrrar og sambærilegrar vöru á leigutímanum, ásamt viðbótarkostnaði sem til fellur, s.s. tilheyrandi tollar og gjöld.
Verði vöru ekki skilað á umsömdum tíma í lok leigutímans áskilur Kristice sér rétt til að innheimta leigugjald áfram auk dagsektar, fyrir hvern dag sem líður þar til vörunni hefur verið komið til starfsmanns eða ábyrgðarmanns Kristice. Kristice er heimilt að innheimta öll gjöld samkvæmt verðskrá hverju sinni.
Kristice áskilur sér rétt til að breyta verði á vöru og framboði á töskum án fyrirvara. Hafi vitlaust verð verið gefið upp í vefversluninni, áskilur Kristice sér rétt til að hætta við útleigu á þeim forsendum.
Gjafabréf og notkun þess
Gjafabréf keypt hjá Kristice hafa fjögurra ára gildistíma. Einungis er hægt að nota gjafabréfin til leigu á vöru í vefversluninni og stofnar handhafi gjafabréfs aðgang með sambærilegum hætti og ef um hefðbundna útleigu væri að ræða. Með notkun á gjafabréfi samþykkir viðskiptavinur skilmála þessa, þ.m.t. um afhendingu nauðsynlegra upplýsinga á aðgangi sínum, greiðslu tryggingar, ábyrgð á vöru og tjóni ef til kemur.
Ekki er hægt að skila gjafabréfi, fá verðmæti þess endurgreitt eða kaupa með því annað gjafabréf. Nægi gjafabréf ekki fyrir leigu tiltekinnar vöru skal handhafi gjafabréfs greiða mismuninn líkt og um hefðbunda útleigu sé að ræða.
Kristice ber enga ábyrgð á týndum eða stolnum gjafabréfum og því eru handhafar þeirra hvattir til að gæta vel að þeim. Allur réttur er áskilinn til að neita að taka við gjafabréfum sem talin eru fengin með sviksamlegum eða ólögmætum hætti.
Fyrirvarar
Kristice ber enga ábyrgð á töfum á afhendingu, tjóni eða skemmdum af völdum óviðráðanlegra aðstæðna, óveðurs eða hvers konar aðstæðna sem valdið geta viðskiptavini tjóni.
Athygli er vakin á því að allt sem tengist vörumerki og heimasíðu Kristice, þ.m.t. skriflegar upplýsingar, hönnun, ljósmyndir o.fl. er eign Kristice og varið af reglum höfundar- og vörumerkjaréttar. Skriflegt samþykki Kristice þarf til að endurbirta upplýsingar sem fram koma á heimasíðu þessari, dreifa þeim eða afrita.
Persónuupplýsingar sem viðskiptavinur gefur upp við skráningu og útleigu verða eingöngu notaðar til þess að Kristice geti uppfyllt samningsskyldur sínar gagnvart viðskiptavinum. Slíkar upplýsingar verða varðveittar á öruggan hátt og ekki afhentar þriðja aðila nema ef nauðsynlegt er vegna tiltekinnar vinnslu þeirra og þá einungis í þeim skilgreinda tilgangi.
Skilmálar þessir eru gerðir samkvæmt íslenskum lögum. Rísi mál vegna þeirra skal það höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Afbókunarskilmálar
Viðskiptavinur getur afbókað leigu innan 24 klst. frá staðfestingu bókunar. Vinsamlegast sendið afbókunarbeiðni á tölvupóstfangið kristice@kristice.is.
Berist afbókun a.m.k. 14 dögum fyrir upphaf leigutíma (þ.e. miðvikudegi tveimur vikum fyrir afhendingu) verður leigugjald endurgreitt að fullu. Berist afbókun síðar er helmingur leigugjalds endurgreiddur.